Hjördís Elsa Ásgeirsdóttir hefur verið ráðin nýr markaðsstjóri hjá Krónunni. Hún hefur víðtæka reynslu af markaðsmálum og markaðsrannsóknum, að því er fram kemur í tilkynningu frá Krónunni.
Undanfarin fimm ár hefur Hjördís starfað hjá Festi, fyrst sem markaðsfulltrúi Krónunnar, Nóatúns og Kjarval en nú síðast sem sérfræðingur í markaðsdeild Krónunnar.
Hjördís er með MS gráðu í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá HÍ og lærði stafræna markaðssetningu og viðskipti á netinu hjá Opna háskólanum í Reykjavík. Hjördís hefur jafnframt bakgrunn í Viðskiptafræði frá HR.
Haft er eftir Grétu Maríu Grétarsdóttur framkvæmdastjóra Krónunnar í tilkynningu að það sé mikið fagnaðarefni að Hjördís Elsa taki við starfinu.
„Krónan hefur vaxið og dafnað á undanförnum árum og eru verslanir okkar nú 24 talsins. Hjördís þekkir sögu fyrirtækisins vel og við hlökkum til að takast á við skemmtilegar áskoranir í síbreytilegu rekstrarumhverfi með hana í fararbroddi.“
