Breiðablik er með fullt hús stiga í Lengjubikar karla eftir tvær umferðr eftir sigur á Víkingi í Fífunni í dag.
Leikurinn byrjaði rólega en fljótlega tóku heimamenn í Breiðabliki öll völd í leiknum.
Fyrsta dauðafæri leiksins átti Brynjólfur Darri Willumsson á 17. mínút en Þórður Ingason varði vel frá honum í marki Víkings. Þórður átti eftir að verja fjölmörg færi í leiknum.
Fyrsta markið kom á 22. mínútu. Kwame Quee átti sendingu fyrir markið og boltinn fór af Dananum Thomas Mikkelsen og í netið. Ekki glæsilegasta markið, boltinn hrökk af Mikkelsen miðjum, en það telur alveg jafn mikið fyrir því.
Blikar óðu í færum og hefðu hæglega getað verið með fjögurra, fimm marka forystu í hálfleik en staðan var þó bara 1-0 í leikhléi.
Seinni hálfleikurinn var meira af því sama, nóg um færi en enginn mörk. Það dró þó til tíðinda undir lok leiksin. Víkingar komu boltanum í netið eftir slæma sendingu frá Gunnleifi Gunnleifssyni í marki Blika og í sekúndubrot leit út fyrir að þeir röndóttu hefðu stolið stigi í lokin. Markið var hins vegar dæmt af vegna rangstöðu.
Örskömmu seinna var Aron Bjarnason búinn að koma Blikum í 2-0 eftir glæsilega sendingu frá Óskari Jónssyni sem var nýkominn inn af bekknum.
Blikar áttu tíma fyrir eitt dauðafæri í viðbót í uppbótartíma en aftur varði Þórður Ingason frábærlega í marki Víkings.
Öll lið riðils 4 hafa þá lokið tveimur leikjum og sitja Blikar á toppnum með sex stig. FH og Keflavík eru með fjögur stig hvor, Grótta með þrjú og Víkingur og Haukar reka lestina án stiga.
