Skoðun

Laumað í blaðatætarann

Egill Þór Jónsson skrifar
Þegar ráðist verður í umferðarlausnir við gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar verður það til mikilla hagsbóta fyrir borgarbúa og aðra sem eiga leið um þessi fjölförnu gatnamót dag hvern. Alla virka daga myndast þar mikil umferðarteppa á morgnana í átt að Sæbraut og vestur í bæ með tilheyrandi töfum og umhverfis­mengun. Seinnipartinn er sömu sögu að segja nema í hina áttina.

Árið 2012 sömdu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu við ríkið um framkvæmdastopp á stórum og dýrum framkvæmdum í vegagerð vegna samdráttar eftir kreppuna. Þessi samningur átti að auka hlutdeild almenningssamgangna og var stóraukið fjármagn sett í Strætó eða um milljarður ár hvert. Því miður gekk það verkefni ekki eins vel og vonast var eftir en öllum er ljóst að aukin hlutdeild almenningssamgangna í umferðinni er öllum vegfarendum til góðs.

Í minnisblaði frá árinu 2012 sem fylgdi kynningu á samningnum um framkvæmdastoppið kemur orðrétt fram að „undantekning frá þessu eru mislægu gatnamótin við Bústaðaveg sem eru ein slysamestu gatnamótin á svæðinu, en ekki hefur náðst samkomulag um útfærslu þeirra“.

Árið 2017 var tillaga Sjálfstæðismanna samþykkt einróma í borgarstjórn um að taka upp viðræður við Vegagerðina um útfærslu gatnamótanna í því skyni að greiða fyrir umferð, draga úr mengun og auka umferðaröryggi. Engar fregnir hafa borist af framvindu þessa máls. Má þannig leiða líkur að því að tillögunni hafi verið laumað í blaðatætarann í Ráðhúsi Reykjavíkur, eða eytt af harða drifi borgarinnar.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×