Í langri færslu gagnrýndi hann áhorfendur á Króknum fyrir kynþáttaníð og að baula á Danero Thomas. Hann sagði einnig að þjálfari liðsins, Israel Martin, væri ekki að taka ákvarðanirnar hjá liðinu.
Allt annað en leikmaðurinn sagði við okkur
„Ég sá þessa færslu í gærkvöldi,“ segir Ingólfur Jón Geirsson, formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls, svekktur þegar hann var spurður að því hvort hann væri búinn að sjá færsluna hjá Ojo.
„Ég var verulega sár að sjá þetta. Þetta er allt annað en leikmaðurinn sagði við okkur er við skildum í sátt og samlyndi. Mér finnst hún í raun fáranleg því hann dregur allan fjandann þarna inn sem kemur málinu nákvæmlega ekkert við og mistúlkar sér í hag heilan helling. Ég skil hann ekki alveg.“

„Er hann fer út í rasismann og varar menn við því að koma til okkar,“ segir Ingólfur en hvað með ummælin um að Martin þjálfari sé ekki að taka allar ákvarðanir?
„Israel Martin er þjálfarinn og ræður öllu. Þetta er í raun það eina fyndna sem ég sá í þessu. Við skiptum okkur ekki af hans ákvörðunum. Hann stendur og fellur með þeim.“
Ekki sparnaðarákvörðun með King
Ojo furðaði sig líka á því að Stólarnir skildu hafa losað sig við Urald King sem hefur verið frábær í búningi Stólanna.
„Þetta er ljómandi góður drengur og góður körfuboltamaður. Því miður var hann ekki að ná heilsu eftir að hafa meiðst á ökkla eftir áramót. Hann reyndi en þetta gekk ekki. Við sáum ekki þær framfarir að hann gæti nýst okkur eins og við þurfum á að halda,“ segir formaðurinn en kom aldrei til greina að gefa honum meiri tíma og athuga hvort hann næði sér ekki fyrir úrslitakeppnina?
„Við mátum það þannig að það væri ekki hægt að bíða eftir því. Við höfum beðið síðan í byrjun janúar. Þetta var ekki sparnaðarákvörðun.“

„Sá maður er ekki fundinn. Hringurinn er þröngur en það hefur enginn viðurkennt á sig verknaðinn sem mér finnst bölvanlega skítt. Að menn geti ekki staðið í lappirnar. Í minni leit hefur krafan verið sú að viðkomandi gefi sig fram, taki svo upp símann og biðji Acox afsökunar. Það er fyrsta skrefið. Ég er ekki mikill maður henginga og sé ekki mikinn hag í því að opinbera hann í litlu samfélagi sem við búum í. Mér finnst nauðsynlegt að hann biðjist afsökunar og við erum enn að leita en það er erfitt þegar enginn gefur sig fram.“
Körfuboltinn er íþrótt guðanna
Köllin að Kristófer komu af svölunum en ekki úr stúkunni. Það ættu því ekki margir að liggja undir grun.
„Þetta er á þröngu svæði og aðrir sem stóðu á þessu þrönga svæði líður ekki vel með að það skuli ekki koma fram hver þetta sé. Þeir vita ekki hver þetta var,“ segir Ingólfur en honum finnst ömurlegt að þetta mál skuli hafa komið upp.
„Þetta er leiðinlegt fyrir körfuboltann, ekki bara okkar félag, því þetta er íþrótt guðanna og að blanda svona inn í hana er fáranlegt. Ég er algjörlega miður mín yfir því að einn vitleysingur geti komið slæmu orðspori á fallegustu íþrótt í heimi.“