Það voru þær Andrea Marý Sigurjónsdóttir, Þórhildur Þórhallsdóttir og Ída Marín Hermannsdóttir sem skoruðu mörk Íslands í þessum flotta sigri.
Andrea Marý skoraði markið sitt af stuttu færi eftir hornspyrnu og Þórhildur Þórhallsdóttir skoraði markið sitt með skalla eftir fyrirgjöf Maríu Catharinu Ólafsdóttur Gros.
Fallegasta mark leiksins skoraði aftur á móti Ída Marín Hermannsdóttir en hún skoraði með glæsilegu langskoti upp í bláhornið. Skotið hennar var algjörlega óverjandi fyrir markvörð írska liðsins.
Fyrri hálfleikur var nokkuð jafn, en Ísland tók völdin í þeim síðari og vann öruggan sigur. Öll þrjú mörkin komu í seinni hálfleik. Andrea Marý skoraði á 65. mínútu, Ída Marín skoraði á 70. mínútu og mark Þórhildar kom á 86. mínútu.
Liðin mætast aftur á miðvikudaginn. Sá leikur fer fram í Kórnum og hefst klukkan 12.00.
Knattspyrnusamband Íslands setti mörkin saman í eitt myndband á Youtube sem má sjá hérna fyrir neðan.