Brady er að flestum talinn sá besti sem spilað hefur leikinn en hann var kosinn besti leikmaður deildarinnar 2017 er hann fór með Patriots liðið í áttunda sinn í Super Bowl. Hann vann svo í níundu ferðinni um helgina.
Þrátt fyrir þennan ævintýralega árangur er hann langt frá því að vera launahæsti leikmaðurinn í deildinni og ekki einu sinni nálægt því að vera launahæsti leikstjórnandinn. SB Nation greinir frá.
Brady hefur alltaf passað upp á að vera ekki með of stóran launapakka svo að Patriots-liðið eigi pláss undir launaþakinu til að vera með góða leikmenn á skrá en Brady vill mun frekar vinna leiki og titla en að vera með einhvern ofursamning.
Tom Brady fékk „aðeins“ fimmtán milljónir dollara fyrir síðustu leiktíð sem gerir hann að 44. launahæsta leikmanni deildarinnar. Þar af eru 21 leikstjórnandi sem fær meira borgað en sá besti sem kastað hefur boltanum.

Þeir fjórir launahæstu, Matt Ryan (Atlanta Falcons, 30 milljónir dollara), Kirk Cousins (Minnesota Vikings, 28 milljónir), Matthew Stafford (Detroit Lions, 27 milljónir) og Derek Carr (Oakland Raiders, 25 milljónir) komust ekki einu sinni í úrslitakeppnina í ár.
Leikstjórnendur sem gætu ekki einu sinni látið sér dreyma um að vinna Super Bowl eins og Tyrod Taylor (Cleveland Browns, 15,2 milljónir) og Blake Bortles (Jaxonville Jaguars, 18 milljónir) eru einnig launahærri en Brady.
Það verður þó að taka fram að Brady var með fimm milljóna dollara bónusapakka ofan á samningnum þannig ef hann hefur náð öllu út úr honum í ár fer hann upp í 17. sætið yfir launahæstu leikstjórnendurna.
Til viðbótar við kollega sína fengu þrettán varnarmenn meira borgað en Brady, fimm útherjar tóku heim stærri launapakka og einn sóknarlínumaður.