Erlent

Maduro gefur lítið fyrir afarkosti Evrópuríkja

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Nicolás Maduro. Í bakgrunn má sjá málverk af frelsishetjunni Simóni Bolívar
Nicolás Maduro. Í bakgrunn má sjá málverk af frelsishetjunni Simóni Bolívar Carlos Becerra/Getty
Nicolás Maduro, forseti Venesúela, hafnar alfarið afarkostum sem nokkur stærstu ríki Evrópu, hafa sett honum þar sem þess var krafist að hann héldi kosningar í landinu innan næstu átta daga, ellegar myndu ríkin viðurkenna leiðtoga stjórnarandstöðunnar, Juan Guiadó, sem forseta landsins.

Bretland, Frakkland, Spánn og Þýskaland sendu Maduro tóninn í gær þar sem ríkin hótuðu því að viðurkenna ekki stjórn hans í landinu ef ekki yrði af kosningunum. Bandaríkin hafa þegar lýst því yfir að þau styðji Guaidó sem forseta Venesúela.

Í viðtali við CNN Türk í Tyrklandi sagðist Maduro hafna þessum afarkostum sem sér væru settir og hélt því fram að tilkall Guaidó bryti í bága við stjórnarskrá Venesúela. Þá sagði hann ólíklegt, en ekki ómögulegt, að hægt væri að koma á samtali og jafnvel fundi milli hans og Donalds Trump Bandaríkjaforseta.

Juan Guaidó hefur get tilkall til forsetastóls Venesúela.Carlos Becerra/Getty
Meðal þeirra ríkja sem standa við bakið á Maduro og tilkalli hans til áframhaldandi setu á valdastól eru Rússland, Kúba og Tyrkland.

Mikil ólga ríkir nú í Venesúela en mótmæli og matarskortur hafa nánast verið daglegt brauð í lífi borgara íbúa landsins undir stjórn Maduro. Afar óstöðugt efnahagsástand er í landinu en gert er ráð fyrir að verðbólga í landinu muni hækka upp í tíu milljón prósent á þessu ári. Þá hafa meira en þrjár milljónir hafa flúið ástandið til nágrannalanda Venesúela frá því Hugo Chávez, forveri Maduro í starfi og flokksbróðir, tók við völdum í landinu eftir byltingu kennda við rómansk-amerísku frelsishetjuna Simón Bolívar.


Tengdar fréttir

Útilokar ekki að slíta viðskiptasambandi við Maduro

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að íslensk stjórnvöld hyggist gera allt sem í þeirra valdi stendur til að knýja á um nýjar kosningar í Venesúela. Hann segist ekki útiloka að hætta öllum viðskiptum við ríkisstjórn Nicolas Maduro, forseta Venesúela.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×