Lögreglan í Þýskalandi hefur handtekið tvítugan mann vegna þjófnaðar og birtingar persónuupplýsinga hundruð stjórnmálamanna þar í landi. Greiðslukortaupplýsingar og farsímanúmer eru meðal þeirra upplýsinga sem maðurinn er sakaður um að hafa stolið og birt á netinu.
Félagar í öllum stjórnmálaflokkum Þýskalands, nema félagar í hægriöfgaflokknum Valkostur fyrir Þýskaland (ADF) urðu fyrir því að upplýsingar þeirra voru birtar. Allt í allt var upplýsingum um þúsund stjórnmálamanna í Þýskalandi stolið og þær birtar.
Upplýsingarnar sem um ræðir koma bæði frá samfélagsmiðlum og einkagögnum.
Lögreglan segir húsleit hafa verið gerða hjá manninum á sunnudaginn og hann hafi verið yfirheyrður. Hann var svo handtekinn í morgun.
Haldinn verður blaðamafundur seinna í dag þar sem lögreglan mun segja nánar frá nýjustu vendingum í málinu, samkvæmt AFP fréttaveitunni.
Spiegel segir lögregluna aðeins hafa þennan eina mann grunaðan vegna málsins. Maðurinn býr enn í foreldrahúsum og hafði eyðilagt tölvu sína þegar áðurnefnd húsleit var framkvæmd. Þá hefur Spiegel eftir heimildarmönnum sínum að málið tengist ekki erlendum aðilum eða leyniþjónustum með nokkrum hætti.
