Kristján Andrésson er þjálfari ársins að mati Samtaka íþróttafréttamanna. Kristján þjálfar sænska karlalandsliðið í handbolta.
Kjörið var kunngjört á árlegu hófi ÍSÍ og Samtaka íþróttafréttamanna í Hörpu í kvöld.
Kristján stýrði Svíum til silfurverðlauna á Evrópumótinu í Króatíu í byrjun árs. Svíar slógu Ólympíumeistara Dana út í undanúrslitunum en byrjuðu mótið á að tapa fyrir Íslandi.
Þetta var í fyrsta skipti sem Kristján stýrði sænska liðinu á stórmóti. Þeir mæta aftur til leiks á HM í Danmörku og Þýskalandi í janúar.
Góður árangur Kristjáns með Svía skilaði því að hann var síðasta sumar ráðinn til þess að taka við þýska stórliðinu Rhein-Neckar Löwen frá sumarinu 2019.
