Eins og alltaf á þessum tíma ársins þá keppa besta pílufólk heims um heimsmeistaratitilinn og að þessu sinni er keppt um 2019 titilinn. Úrslitaleikur mótsins fer fram 1. janúar næstkomandi.
Stöð 2 Sport fylgist vel með heimsmeistaramótinu að þessu sinni og eru beinar útsendingar á næstum því hverjum degi fram á nýársdag.
Heimsmeistarinn Rob Cross frá Englandi tapaði fyrsta setti 3-0 á móti Hollendingnum Jeffrey de Zwaan en tókst að merja 3-2 sigur í setti tvö og tryggði sér síðan sæti í 32 manna úrslitum með því að vinna þriðja og fjórða settið 3-1. Jeffrey de Zwaan hafði fyrr um kvöldið slegið út Nitin Kumar frá Indlandi.
Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir af Rob Cross í gær.
Lisa Ashton var eina konan sem keppir í úrslitunum í ár og hún byrjaði frábærlega á móti Hollendingnum Jan Dekker með því að vinna fyrsta settið 3-0.
Jan Dekker var brugðið enda fékk Lisa mikinn stuðning í salnum en Hollendingnum tókst engu að síður að koma sterkur til baka og vinna þrjú sett í röð, 3-0, 3-2 og 3-1.
Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir af Jan Dekker og Lisa Ashton í gær.
Cody Harris frá Nýja Sjálandi komst einnig áfram í gær. Cody Harris vann frekar óvæntan sigur á Martin Schindler frá Þýskalandi í jöfnum og skemmtilegum leik. Úrslitin réðust ekki fyrr en í oddasettinu sem Harris vann 3-1.
Átta viðureignir fara fram í dag, sex í 64 manna úrslitum og tvær í 32 manna úrslitum. 32 bestu pílararnir sátu hjá í fyrstu umferðinni.
Tvær útsendingar verða frá HM í pílu á Stöð 2 Sport 2 í dag. Sú fyrri klukkan 12.30 og sú seinni klukkan 19.00.