Fram kemur í tilkynningu frá WOW air að fulltrúar félaganna tveggja hafi fundað síðustu daga og Bill Franke, stofnandi og aðaleigandi Indigo Partners, hafi verið hér undanfarna tvo daga að til að kynnast WOW air og fara yfir framtíðartækifæri þess.
Í tilkynningu WOW air segir að heimsókn Franke hafi verið liður í áframhaldandi áreiðanleikakönnun sem fjárfesting Indigo Partners í WOW air muni grundvallast á. Báðir aðilar vilji ljúka samningum eins fljótt og auðið er. Áður en hægt sé að ljúka samningum þurfi að liggja fyrir niðurstöður varðandi leiðakerfi WOW air, flugvélaleigusamninga ásamt samningum við skuldabréfaeigendur sem keyptu í útboði WOW air í september.
Í tilkynningu er haft eftir Bill Franke að heimsóknin hafi verið „tveir afkastamiklir dagar“ þar sem rætt hafi verið um framtíðarrekstur WOW air. „Stjórnendateymi WOW air er sterkt, vörumerkið öflugt og félagið hefur mikil tækifæri,“ er haft eftir Franke. Haft er eftir Skúla Mogensen en starfsfólk WOW air sé ánægt með heimsókn Indigo Partners. Leitun sé að betri og reyndari samstarfsaðila til þess að efla rekstur og tryggja framtíð WOW air.
Ekki liggur fyrir hvenær niðurstöður áreiðanleikakönnunar eiga að liggja fyrir eða hvenær stefnt sé að því að skrifa undir kaupsamning.
Bandaríska fyrirtækið Plane View Partners LLC hefur verið WOW air til ráðgjafar í samningaviðræðunum við Indigo Partners.
Franke er stjórnarformaður lággjaldaflugfélaganna Wizz air og Frontier Airlines en Indigo er ráðandi fjárfestir í báðum félögum. Á síðasta ári gekk Indigo Partners frá samningi um pöntun á 430 Airbus þotum. Samningurinn hljóðaði upp á 50 milljarða dollara og er um að ræða einn stærsta samning sögunnar í flugiðnaðinum.
Viðtal við Skúla Mogensen þar sem hann ræðir bráðabirðgasamkomulagið við Indigo Partners, atburði síðustu vikna og framtíðarhorfur WOW air. Viðtalið var tekið sama dag og greint var frá bráðabirgðasamkomulagi við Indigo Partners.