Í leiknum voru að mætast tvö bestu lið deildarinnar, LA Rams og Kansas City Chiefs. Bæði lið höfðu unnið níu leiki og tapað einum fyrir nóttina. Leiknum stórkostlega lyktaði með 54-51 sigri Rams. Ævintýralegt.
Það var ekki bara mikið skorað heldur var leikurinn æsispennandi alveg til enda. Staðan í leikhléi var 23-23. Undir lokin brást hinn magnaði leikstjórnandi Kansas City Chiefs, Patrick Mahomes, en hann kastaði boltanum frá sér í síðustu tveimur sóknum liðsins.
Tölurnar í þessum leik eru ruglaðar. Það voru skoruð 14 snertimörk í leiknum og liðin náðu 1.001 jördum samtals. Þetta var stigahæsti mánudagsleikur sögunnar og sá þriðji stigahæsti frá upphafi. Metið frá 1966 er 113 stig.
Þetta er aftur á móti í fyrsta sinn í sögu NFL-deildarinnar sem tvö lið skora yfir 50 stig í leik. Þó svo mikið hafi verið skorað stóðu varnirnar sig ágætlega og náðu báðar að skora. Rams-vörnin skoraði tvö snertimörk.

Mahomes átti skrautlegan leik. 478 jardar og 6 snertimörk takk fyrir. Hann kastaði boltanum aftur á móti þrisvar frá sér og tvisvar náði vörnin að slá boltann úr höndum hans og skora. Það var of dýrt í svona svakalegum leik.
Útherjinn Tyreek Hill var með litla 215 jarda og tvö snertimörk. Innherjinn Travis Kelce var með 127 gripna jarda og eitt snertimark. Margir með stórleik.
Hér má sjá öll helstu tilþrif leiksins. Óhætt er að mæla með þessari klippu.