Erlent

Missti ökuskírteinið 49 mínútum eftir að hafa fengið það í hendurnar

Atli Ísleifsson skrifar
Pilturinn var tekinn á 95 kílómetra hraða á svæði þar sem hámarkshraðinn var 50.
Pilturinn var tekinn á 95 kílómetra hraða á svæði þar sem hámarkshraðinn var 50. Getty/Tomasz Zajda
Lögregla í Þýskalandi svipti nýverið táning ökuskírteini 49 mínútum eftir að sá hafði fengið það í hendur.

Í frétt BBC  kemur fram að átján ára piltur hafi staðist ökupróf í bænum Hemer í Norðurrín-Vestfalíu, fengið skírteinið hendur og skömmu síðar verið tekinn af lögreglu fyrir of hraðan akstur.

Pilturinn var tekinn á 95 kílómetra hraða á svæði þar sem hámarkshraðinn var 50. „Sumir hlutir vara að eilífu – aðrir ekki einu sinni í klukkustund,“ sagði í tilkynningu frá lögreglunni.

Pilturinn var með fjóra félaga sína í bílnum þegar hann var gripinn glóðvolgur og er talið að hann hafi verið að reyna að ganga í augun á þeim með glæfraakstri sínum.

Hann missir ökuskírteinið í mánuð, en lögregla segir að hann muni einungis fá það aftur eftir að hafa gengist undir „kostnaðarsama endurmenntun“. Þá þarf hann að greiða tvö hundruð evru sekt sem samsvarar um 30 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×