Í tölvupóstinum sagði Skúli að aðrir fjárfestar hefðu sýnt WOW Air áhuga og að verið sé að fylgja þeim áhuga eftir samhliða viðræðum við Icelandair vegna fyrirhugaðra kaupa þess á WOW Air.
Morgunblaðið fullyrðir í dag að tölvupóstur Skúla hafi valdið miklum titringi innan Icelandair og í raun komið forsvarsmönnum félagsins í opna skjöldu. Er því haldið fram að ummæli Skúla gætu komið til skoðunar Samkeppniseftirlitsins því stofnunin vilji kanna alla möguleika umfram þann að heimila kaup Icelandair á WOW.
Hluthafar verða að leggja blessun sína á kaupin
Úlfar vildi lítið tjá sig um það hvort að þessi tölvupóstur Skúla hefði valdið titringi innan Icelandair. Í samtali við Vísi minnti hann á boðað hefði verið til hluthafafundar félagsins næstkomandi föstudag, þar sem ræða á hin fyrirhuguðu kaup Icelandair á WOW Air, á sínum tíma þegar fyrstu fregnir bárust af málinu í upphafi mánaðar.
Hann segir Icelandair vinna enn að þessum fyrirhuguðu kaupum. „Og sú vinna heldur bara áfram,“ segir Úlfar.
Viðskipti stöðvuð í gær
Icelandair sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem kom fram að ólíklegt væri að allir fyrirvarar í kaupsamningi félagsins á öllu hlutafé WOW Air verði uppfylltir í tæka tíð fyrir hluthafafund félagsins á föstudag þar sem hin fyrirhuguðu kaup verða tekin fyrir.Viðskipti með bréf Icelandair Group voru stöðvuð í Kauphöllinni í gærmorgun. Var það gert að beiðni Fjármálaeftirlitsins til að tryggja jafnræði fjárfesta.