Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hélt í dag til Lettlands í opinbera heimsókn sem standa mun dagana 16. til 18. nóvember.
Í tilkynningu frá skrifstofu forseta segir að Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra sé með forseta í för auk embættismanna.
„Heimsóknin hefst föstudaginn 16. nóvember og meðal viðburða í ferðinni má nefna opinbera móttökuathöfn við forsetahöllina í Riga, fund með forseta landsins, fund með forseta þingsins og loks fund með utanríkisráðherra auk þess sem forseti mun flytja opinberan fyrirlestur við Háskóla Lettlands í Riga.
Forseti mun ávarpa málstofu um samskipti Íslands og Lettlands á sviði menningar, stjórnmála og viðskipta laugardaginn 17. nóvember en á sunnudag tekur hann þátt í viðburðum sem tengjast eitt hundrað ára afmæli lýðveldis Letta.
Þess má geta að forseti heimsótti Eistland og Litháen fyrr á árinu af hliðstæðu tilefni,“ segir í tilkynningunni.

