Skoðun

Burt með ábyrgðarmannakerfið

Þórunn Sveinbjarnardóttir skrifar
Allt fram til ársins 2009 þurfti námsmaður sem hugðist taka lán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) að fá einhvern annan, t.d. foreldri, náinn ættingja eða vin, til að ábyrgjast lánið. Árið 2009 var lögum um sjóðinn breytt og skilyrðið um ábyrgðarmann afnumið. Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu var talið að skilyrðið samræmdist ekki þeim tilgangi laganna að tryggja jafnrétti til náms, enda væru ekki allir námsmenn í þeirri stöðu að geta útvegað ábyrgðarmann.

Á sama tíma var ákveðið að sjálfsskuldarábyrgð ábyrgðarmanna yrði áfram virk á útistandandi námslánum. Það var gert með þeim rökum að afnám ábyrgðarmannakerfisins að fullu gæti komið niður á innheimtuhlutfalli lánanna og stefnt fjármögnun sjóðsins í hættu. Röksemdin fyrir þessu ósamræmi er sem sagt fjárhagsleg.

BHM telur ótækt að lántakendum hjá LÍN sé mismunað með þessum hætti og krefst þess að ábyrgðarmannakerfið verði afnumið að fullu. Það er réttlætismál að breyta þessu fyrirkomulagi. Mýmörg dæmi má rekja um dapurlegar afleiðingar þess fyrir fjölskyldur lántaka. Þar að auki hafa að undanförnu fallið dómar sem leiða í ljós að reglur um ábyrgðarmenn eru ófullkomnar og að ábyrgðarmenn námslána njóta ekki jafnræðis á við ábyrgðarmenn annarra lána í fjármálakerfinu.

Fleiri atriði er vert að endurskoða hjá LÍN. Samkvæmt lögum eru námslán ótímabundin og fyrnast ekki. Fólk sem tekur há námslán og/eða hefur lágar tekjur getur lent í því að þurfa að greiða af námslánum alla ævi. Það getur verið verulega íþyngjandi fyrir fólk á eftirlaunum að þurfa að greiða af námslánum. Nærtækt dæmi um slíkt eru konur sem fóru seint í háskólanám, höfðu margar fyrir börnum að sjá, og sitja margar uppi með sligandi skuldir en oftast lágar tekjur. Annað atriði sem huga mætti að er uppgreiðsluafslátturinn. Samkvæmt núgildandi reglum er veittur 7% uppgreiðsluafsláttur þegar greitt er upp ógjaldfallið lán. Spyrja má hvort hvatinn til uppgreiðslu sé nægur.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×