Skoðun

Athygli og algóritmi

Guðrún Vilmundardóttir skrifar
Í fyrrakvöld var ég stödd í Óperuhúsinu í Ósló, þar sem bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs voru veitt með viðhöfn. Ég var gífurlega ánægð með úrslitin. Þegar verðlaunahafinn og prinsessan, sem afhenti verðlaunin, stóðu á sviðinu undir dynjandi lófataki deildi ég mynd frá viðburðinum á Facebook.

Ég leit á símann þegar gengið var út úr salnum og sá að samstarfskonu minni líkaði innleggið og hugsaði roggin með mér: Viðbrögðin láta ekki á sér standa.

Við tóku nokkur veisluhöld. Áður en ég gekk til náða leit ég aftur á símann og það gladdi mig að frétta- og samfélagsmiðlar voru uppfullir af fréttum af verðlaunahátíðinni. En ekki fékk mitt innlegg mikla athygli. Raunar alls enga. Jæja, hugsaði ég, upplitsdjörf en kannski örlítið spæld. Það er ekki eins og mín prívatsíða sé fréttamiðill. Þetta hlýtur að vera algó­ritminn.

Gærdagurinn var annasamur en þegar ég settist niður seinni partinn, á Karl Johans gate, runnu á mig tvær grímur, sama hvað öllum algóritma líður: Mamma var ekki einu sinni búin að „læka“ myndina mína!

Rifjaðist þá upp fyrir mér saga af konu sem mánuðum saman hafði Facebook-síðu sína, óvart, stillta þannig að enginn sá hana nema hún. Hún fékk aldrei nein viðbrögð, við neinu, en lét það ekki á sig fá. Þau stóísku viðbrögð sé ég nú í nýju ljósi. Ég var farin að ókyrrast mjög. Á innan við sólarhring.

Ég athugaði stillingarnar og viti menn: færslan var læst.

Mér er merkilega létt yfir því að hafa ekki þurft að lúta í lægra haldi fyrir algóritmanum.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×