Um áttatíu manns, aðallega nemendum, var rænt úr skóla í borginni Bamenda í vesturhluta Kamerún. Fjölmiðlar í Kamerún hafa þetta eftir heimildarmönnum innan ríkisstjórnar og hersins. Í frétt BBC kemur fram að hópur vopnaðra manna hafi flutt fólkið á brott fyrr í dag.
Árásir herskárra aðskilnaðarsinna hafa verið tíðar í hinum enskumælandi Norðvestur- og Suðvesturhéruðum landsins síðustu misserin. Uppreisnarmenn hafa að undanförnu hvatt íbúa til að sniðganga skóla, en enn hefur enginn hópur lýst yfir ábyrgð á árásinni í morgun.
Heimildarmaður innan ríkisstjórnarinnar segir að 82 hafi verið rænt – 79 nemendum, skólastjóra, einum kennara og bílstjóra.
Aðskilnaðarsinnarnir, sem stefna að stofnun sjálfstæðs ríkis, Ambasóníu, vilja meina að menntakerfið, þar sem franska tungan er ríkjandi, brjóti gegn nemendum í hinum enskumælandi hluta landsins.
