Skipið mun stoppa í einhverja daga í Keflavíkurhöfn meðan fyllt verður í þau göt sem þarf til að tryggja að það fljóti lengri leið. Síðan er stefnt að því að fara með það til Hafnarfjarðarhafnar þar sem það mun fara í flotkvína sem þar sem það verður gert betur við það til þess að hægt verði að draga það yfir hafið samkvæmt Halldóri.
Dráttarbátar frá Faxaflóahöfnum voru til taks í dag. Síðan um hádegisbil í dag hefur verið unnið að því að koma skipinu á flot og var verið að stilla það af um fimmleytið í dag. Það var svo um hálf átta í kvöld að skipið var laust af strandstað og hófst þá flutningur yfir til Keflavíkurhafnar.
Fjórtán manna áhöfn skipsins og hafnsögumanni var bjargað um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar aðfaranótt laugardagsins 3. nóvember síðastliðinn eftir að skipið rak upp í utanverðan hafnargarð Helguvíkurhafnar. Allt tiltækt björgunarlið var kallað á vettvang. Skipið var fullhlaðið þegar það strandaði en til stóð að að landa um sextán hundruð tonnum af sementi í Helguvík.
Myndband frá vettvangi í kvöld má sjá hér að neðan. Myndir tóku Sighvatur Jónsson og Víkurfréttir.