Erlent

Viðurkennir að hafa orðið um hundrað sjúklingum að bana

Atli Ísleifsson skrifar
Búist er við að réttarhöldin standi fram í maí á næsta ári.
Búist er við að réttarhöldin standi fram í maí á næsta ári. Getty/David Hecker
Fyrrverandi hjúkrunarfræðingur í Þýskalandi hefur viðurkennt að hafa orðið hundrað sjúklingum sínum að bana. Réttarhöld í máli mannsins hófust í þýsku borginni Oldenburg í morgun.

Saksóknarar segja hinn 41 árs Niels Högel hafa gefið sjúklingunum banvæna lyfjaskammta, en hann gerði þetta á tveimur sjúkrahúsum í norðurhluta Þýskalands þar sem hann starfaði.

Saksóknarar segja ástæðu mannsins fyrir að gefa sjúklingum lyfjaskammtana, hafi verið að gangast í augun á samstarfsfólki með því að endurlífga sjúklinga sem hann hafði eitrað fyrir.

Afplánar nú þegar lífstíðardóm

Högel afplánar nú þegar lífstíðardóm fyrir að hafa orðið sjúklungum að bana. Talið er að hann hafi banað alls 36 sjúklingum í Oldenburg og 64 í Delmenhorst á árunum 1999 til 2005.

Þegar dómari spurði Högel í morgun hvort það sem fram kæmi í ákæru væri satt sagði Högel svo „nokkurn veginn“ vera.

Mesti raðmorðingi eftirstríðsáranna

Játningin gerir Högel að mesta raðmorðingja Þýskalands eftir síðari heimsstyrjöld. Talið er að hann kunni að hafa orðið fleirum að bana, en lík fjölda mögulegra fórnarlamba voru brennd og því ekki hægt að taka sýni úr líkamsleifum viðkomandi.

Upp komst um Högel árið 2005 þegar hann hafði sprautað lyfjum, sem ekki höfðu verið skrifuð út, í sjúkling í Delmenhorst.

Árið 2008 var hann dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps. Hann fékk svo lífstíðardóm árið 2015 eftir að hafa verið fundinn sekur um tvö manndráp og tvær tilraunir til manndráps. Í kjölfarið var ákveðið að taka sýni úr líkamsleifum um 130 sjúklinga sem höfðu verið í hans umsjá.

Búist er við að réttarhöldin standi fram í maí á næsta ári.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×