Fyrirtækið Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar ehf. gerði skýrsluna fyrir Rangárþing ytra. Eins og við er að búast er fjölgun ferðamanna á svæðinu á þessum tíu árum gríðarleg. Þangað komu 230 þúsund ferðamenn árið 2008 miðað við þá 1.381 þúsund sem áður eru nefndir. Um er að ræða sexföldun.
„Þetta þýðir að 69 prósent erlendra ferðamanna til Íslands með flugi eða ferju árið 2017 komu í Rangárvallasýslu en 46 prósent þeirra árið 2008. Samkvæmt því hefur Rangárvallasýsla aukið hlut sinn um 50 prósent á tímabilinu,“ segir um helstu niðurstöður skýrslunnar á vef Rangárþings ytra.
Fjölgunin er miklu meiri að vetrarlagi en yfir sumarið samkvæmt niðurstöðunum.

„Þessar niðurstöður sýna ótvírætt að ferðamannatíminn í Rangárvallasýslu hefur lengst jafnt og þétt og að nú koma ferðamenn þangað einnig í miklum mæli allt árið. Ferðaþjónusta er því orðin öflug heilsársatvinnugrein á svæðinu.“
Þá kemur fram að áætlað sé að af 1.381 þúsund erlendum gestum á láglendi Rangárvallasýslu árið 2017 hafi 458 þúsund gist þar að jafnaði í 1,6 nætur hver. Dagsgestir hafi þá verið 923 þúsund. „Því eru erlendar gistinætur á láglendi sýslunnar áætlaðar um 713 þúsund árið 2017. Þar við bætast áætlaðar 60 til 70 þúsund gistinætur á hálendi sýslunnar.“
Sérstaklega er rætt um erlenda ferðamenn í Landmannalaugum og öðrum hálendisstöðum. „Áætlað er að árið 2017 hafi 144 þúsund erlendir ferðamenn komið í Landmannalaugar en 68 þúsund árið 2008, sem er rúmlega tvöföldun,“ segir um heimsóknir á þennan vinsæla áfangastað íslenskra ferðamanna í gegn um áratugina.
„Erlendir ferðamenn voru samkvæmt könnunum RRF í yfirgnæfandi meirihluta gesta í Landmannalaugum árið 2017, 88 prósent, og á Hellu, 79 prósent, og í miklum meirihluta í Nýjadal, 61 prósent. Hins vegar var mjórra á munum í Hrauneyjum og Þykkvabæ en Íslendingar í miklum meirihluta í Veiðivötnum, 72 prósent,“ segir um gestakomur á þessa staði.