Skoðun

Öflugra dagforeldrakerfi

Skúli Helgason skrifar
Meirihluti Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna í borgarstjórn leggur mikla áherslu á að bæta aðbúnað ungbarnafjölskyldna í borginni og vinnur á báðar hendur að kraftmikilli uppbyggingu nýrra leikskóla með fjölgun leikskólarýma fyrir börn yngri en 18 mánaða og hins vegar eflingu dagforeldakerfisins sem hefur verið mikilvægur valkostur fyrir marga foreldra á undanförnum áratugum.

Við settum á fót starfshóp í fyrra til að vinna að eflingu dagforeldakerfisins og nú höfum við samþykkt í skóla- og frístundaráði fjölmargar aðgerðir sem byggja á einstökum tillögum starfshópsins að hluta eða öllu leyti. Tilgangurinn er að bæta þjónustuna, auka öryggi hennar og fjölga dagforeldrum. Við leggjum áherslu á jákvæða hvata sem grundvallaraðferðafræði og borgin er tilbúin að leggja sitt af mörkum við að fjölga dagforeldrum með því m.a. að taka upp stofnstyrk fyrir nýja dagforeldra, auka námsstyrki og faglegan stuðning við dagforeldra, bæta eftirlit og ráðgjöf og taka upp ytra mat byggt á fyrirliggjandi gæðaviðmiðum. Þá hækka niðurgreiðslur um 15% sem er mesta hækkun í einu skrefi á undanförnum árum. Alls hafa niðurgreiðslur til dagforeldra þá hækkað um nærri 38% frá árinu 2015 sem er talsvert umfram verðbólgu og yfir meðalhækkun launa.

Ein veigamesta aðgerðin sem nú er lögð til er að borgin leggi sitt af mörkum til að auka öryggi þjónustunnar með því að stíga fyrsta skrefið í að leggja þeim dagforeldrum til húsnæði sem starfa tveir saman. Miðað er við að eitt starfandi dagforeldri og eitt nýtt starfi saman og í fyrsta áfanga verði lögð fram þrjú hús á þremur stöðum. Það er vilji borgarinnar að dagforeldrar starfi í auknum mæli tveir saman og það er góðu heilli þróun sem er hafin í talsverðum mæli því tæplega helmingur dagforeldra starfar með öðrum. Það eykur öryggi og gæði þjónustunnar, dregur úr áhyggjum foreldra og skýtur frekari stoðum undir starfsemi dagforeldra sem mikilvægrar þjónustu við ungbarnafjölskyldur í borginni.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×