New England vann fyrsta leik en tapaði svo tveimur í röð. Eins og svo oft áður voru menn fljótir að afskrifa hinn 41 árs gamla Tom Brady sem hefur ekki verið með jafnlítið af sóknarvopnum í kringum sig í byrjun leiktíðar í langan tíma.
En, Julian Edelman var mættur aftur í nótt eftir að taka út fjögurra leikja bann og greip sjö sendingar frá Brady fyrir 57 jördum.

Í heildina kláraði Brady 34 af 44 sendingum fyrir 341 jarda og tveimur snertimörkum en hann kastaði boltanum þó tvívegis frá sér. Hann kastaði fyrir sínu 500. snertimarki í leiknum og bjargaði New England í fjórða leikhluta þegar að Colts reyndi endurkomu.
Vandræðagemsinn Josh Gordon fór langt með að klára leikinn þegar að hann greip boltann í endamarkinu í fjórða leikhluta á ótrúlegan hátt en hann varð með því 71. leikmaðurinn sem grípur snertimarkssendingu frá Tom Brady. Það er met í NFL-deildinni.
Hlauparinn James White fór á kostum sem útherji en hann greip tíu bolta fyrir 77 jördum og snertimarki og nýliðahlauparinn Sony Michel fór 98 jarda og skoraði eitt snertimark.