Viðskipti erlent

Hlutabréf í Juventus taka dýfu í kjölfar ásakana á hendur Ronaldo

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ronaldo er sakaður um að hafa nauðgað Kathryn Mayorga í Las Vegas árið 2009.
Ronaldo er sakaður um að hafa nauðgað Kathryn Mayorga í Las Vegas árið 2009. Vísir/AP
Hlutabréf í ítalska knattspyrnuliðinu Juventus hafa lækkað hratt í verði síðan ásakanir á hendur knattspyrnumanninum Cristiano Ronaldo um nauðgun komust í hámæli á þriðjudag. Ronaldo er leikmaður félagsins. BBC greinir frá þessu.

Kona að nafni Kathryn Mayorga kom um helgina fram í viðtali við þýska blaðið Der Spiegel en þar sakaði hún Ronaldo um að hafa nauðgað sér í Las Vegas árið 2009. Blaðið fjallaði fyrst um ásakanir hennar á hendur Ronaldo á síðasta ári. Sú umfjöllun var byggð á skjölum sem lekið var til blaðsins og vildi Mayorga ekki tjá sig um málið þá. Kom nafn hennar því hvergi fram.

Síðan Mayorga steig fram með ásakanirnar hafa hlutabréf í Juventus, félaginu sem Ronaldo leikur fyrir, tekið umtalsverða dýfu, en þegar þetta var skrifað hafði félagið tapað um 10% af markaðsvirði sínu á einum degi [föstudegi].

Einnig vakti mikla athygli í gær þegar íþróttavöruframleiðandinn Nike, sem er einn helsti styrktaraðili Ronaldo, gaf út yfirlýsingu þar sem sagði að fyrirtækið hefði „djúpstæðar áhyggjur“ af ásökununum.

Þá hefur Juventus verið gagnrýnt harðlega á samfélagsmiðlum en mörgum þykir félagið hafa höndlað málið á afar klaufalegan hátt, þegar Twitter-reikningur félagsins birti tíst þess efnis að Ronaldo hefði „á undanförnum mánuðum sýnt af sér mikla fagmennsku og eldmóð.“

Þá sagði einnig á reikningi félagsins að ásakanirnar á hendur honum breyttu ekki skoðunum fólks á Ronaldo, sem var í tístinu kallaður „mikill meistari.“


Tengdar fréttir

Lögreglan í Las Vegas hefur rannsókn að nýju

Lögreglan í borginni Las Vegas í Nevadaríki Bandaríkjanna hefur að nýju hafið rannsókn á kynferðisbrotamáli sem átti sér stað í borginni fyrir níu árum síðan. Dagsetningin gefur til kynna að um sé að ræða mál Cristiano Ronaldo.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×