Skoðun

Lífsneistinn

Lára G. Sigurðardóttir skrifar
Í viðtali hjá BBC sagði hin 26 ára gamla Hati frá því að hún hefði reynt að svipta sig lífi 16 ára gömul – þrír vina hennar frömdu sjálfsvíg undir tvítugu. Hati átti erfiða æsku og enginn virtist kæra sig um hvernig henni liði. Þangað til að einn skóladaginn tók kennari eftir að henni leið ekki vel og spurði hvort það væri í lagi með hana. Hati brast í grát og létti á hjarta sínu. Kennarinn hlustaði með athygli og hjálpaði henni að leita sér aðstoðar. Í dag lifir Hati góðu lífi þökk sé inngripi kennarans.

Þetta er ein saga af mörgum. Ástæður að baki sjálfsvígshugsunum eru margar. Þær geta bæði litast af umhverfi og erfðum. Engin saga er eins.

Það er nauðsynlegt að hafa í huga að sjálfsvíg eru ekki endilega fyrirfram ákveðin örlög heldur eitthvað sem við ættum, í mörgum tilfellum, að geta komið í veg fyrir.

Á alþjóðlegum degi sjálfsvígsforvarna er gott að minna sig á að við þurfum alltaf að vera vakandi fyrir því hvernig fólkið í nærumhverfi okkar hefur það. Ljá þeim sem okkur sýnist vansælir eyra og vera til staðar fyrir hvert annað. Það er aldrei að vita nema við getum leitt einhvern út úr myrkrinu í átt að bjartari framtíð.

En það þarf meira til. Í velferðarríkinu, sem stjórnmálamenn vilja gjarnan telja okkur trú um að við búum í, þurfa að vera til staðar skýr úrræði og kröftugur stuðningur fagfólks. Yfirvaldið hefur í höndunum aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum – það hefur allar burði til að efla geðheilbrigðismál og hjálpa þeim sem glatað hafa lífsneistanum og aðstandendum þeirra.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×