Erlent

Mannskæðar aurskriður á Filippseyjum eftir Mangkhut

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Nærri sjávarmáli hafa flóð raskað samgöngum og eyðilagt uppskerur.
Nærri sjávarmáli hafa flóð raskað samgöngum og eyðilagt uppskerur. Vísir/AP
Fellibylurinn Mangkhut gengur nú yfir suðurhluta Kína og hefur styrkur hans dvínað umtalsvert. Gríðarleg eyðilegging hefur fylgt fellibylnum eftir að hann gekk yfir Filippseyjar, Hong Kong og Kína um helgina.

Nokkrir eru látnir í Kína en útlit er fyrir að mannfallið hafi orðið mest á Filippseyjum en talið er að um 100 séu látnir. Björgunarstarf er í fullum gangi á þeim stöðum sem illa urðu úti.

Bæir á Filippseyjum sem liggja nærri sjávarmáli hafa orðið illa úti. Daglegt líf og samgöngur hafa þar farið úr skorðum en auk þess er uppskera ónýt og fiskistofn á svæðinu hefur orðið fyrir miklum áhrifum.

Í fjallahéruðum hafa mannskæðar aurskriður fallið og björgunarstörf eru við einkar erfið skilyrði.Vísir/AP
Þegar nær dregur fjöllum eru það aurskriður sem hafa valdið mestu tjóni en minnst 32 létust í námubænum Itogon og talið er að sú tala fari hækkandi. Viðbragðsaðilar eru nú í kappi við tímann við að leita að eftirlifendum en talið er að um 55 manns hafi orðið undir skriðunni í Itogon. Ættingjar þeirra bíða í von og óvon eftir fregnum frá björgunaraðilum.

„Von mín er að þeir séu á heilu og höldnu og að einhver finni þá,“ segir Anna Badangayon íbúi í Itogon sem bíður fregna af ættingjum sem urðu fyrir skriðunni. „Þó þeir séu látnir vonast ég til að við finnum líkamsleifar þeirra og kvatt þá með frið í hjarta.“

Björgunarastörf eru með erfiðara móti þar sem rigning, aur og drulla tefur mikið fyrir störfum og gerir viðbragðsaðilum erfitt fyrir að bera kennsl á lík sem kunna að finnast.


Tengdar fréttir

Ógurlegt tjón eftir Mangkhut

Minnst 64 eru látnir eftir að hitabeltisstormurinn Mangkhut fór yfir Filippseyjar og suðurhluta Kína. Talið er víst að tala látinna muni hækka enn. Illa gengur að koma björgunarfólki á þau svæði sem verst urðu úti.

Minnst 25 dánir og ótti um uppskerubrest

Yfirvöld Filippseyja vinna nú hörðum höndum að því að taka saman dauðsföll og skemmdir í kjölfar fellibylsins Mangkhut sem fór þar yfir fyrr um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×