Erik Hamrén, nýr þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, tilkynnir sinn fyrsta landsliðshóp á blaðamannafundi í dag. Fram undan eru leikir við Sviss og Belgíu í Þjóðadeild UEFA 8. og 11. september næstkomandi.
Ekki liggur fyrir hvort fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson verður með í leikjunum tveimur. Hann hefur misst af fyrstu tveimur leikjum Cardiff City í ensku úrvalsdeildinni vegna meiðsla. Þá er eiginkona hans, Kristbjörg Jónasdóttir, ólétt og von er á barninu í byrjun næsta mánaðar. Aron Einar missti af fæðingu frumburðar þeirra fyrir þremur árum þegar hann var í Kasakstan með landsliðinu. Hann hefur sagt að hann ætli ekki að missa af fæðingu annars barns þeirra hjóna.
Daginn eftir að Ísland lauk þátttöku á HM í Rússlandi tilkynnti Ragnar Sigurðsson að hann hefði lagt landsliðsskóna á hilluna. Þegar Hamrén var kynntur til leiks sem nýr landsliðsþjálfari fyrr í mánuðinum sagðist hann ætla að reyna að telja Ragnari hughvarf og fá miðvörðinn til að hætta við að hætta í landsliðinu.
Félagi Ragnars í miðri íslensku vörninni á síðustu árum, Kári Árnason, hefur einnig gefið það í skyn að hann hafi leikið sinn síðasta landsleik. Íslenska vörnin gæti því verið nokkuð breytt í leikjunum gegn Sviss og Belgíu.
Íslenska liðið mætir heimsmeisturum Frakklands í vináttulandsleik 11. október og fjórum dögum síðar tekur það á móti Sviss í Þjóðadeildinni. Fimmtánda nóvember mætir Ísland svo Belgíu í síðasta leik sínum í riðli 2 í Þjóðadeildinni.
