Sport

Serena Williams má ekki keppa í gallanum sem „lét henni líða eins og ofurhetju“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Williams í gallanum á Opna franska meistaramótinu fyrr á þessu ári
Williams í gallanum á Opna franska meistaramótinu fyrr á þessu ári Vísir/Getty
Serena Williams má ekki keppa í heilgalla á Opna franska meistaramótinu á komandi árum. Forráðamenn mótsins ætla að herða reglur um fataval.

Williams, besta tenniskona heims síðustu ár, mætti á Opna franska meistaramótið í ár í svörtum heilgalla sem „lét henni líða eins og ofurhetju.“ Hún sagði jafnframt að gallinn hjálpaði til við að eiga við blóðtappa, en hún lét næstum lífið vegna blóðtappa í fæðingu frumburðar hennar á síðasta ári.

Forráðamenn Opna franska mótsins eru hins vegar á því að þeir hafi leyft hlutunum að ganga of langt og gallar á borð við þann sem Williams klæddist verði ekki leyfilegir á næsta ári.

„Við verðum að virða leikinn og staðinn. Þetta verður ekki liðið lengur,“ sagði Bernard Giudicelli, formaður franska tennissambandsins.

Giudicelli fór ekki nákvæmlega út í hverjar reglurnar um fataval verða, en sagði þó að þær yrðu ekki eins stífar og á Wimbledon þar sem íþróttamennirnir verða að klæðast hvítu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×