Skoðun

Ráðdeild í Reykjavík?

Katrín Atladóttir skrifar
Þegar vel árar eykst eigið fé landsmanna og skuldir minnka. Þar með lækkar fjármagnskostnaður og svigrúm skapast til fjárfestinga eða sparnaðar. Ekki er síður mikilvægt að opinberir aðilar standi sig og sýni ráðdeild. Að þeir lækki skuldir í uppsveiflu líkt og einstaklingar og fyrirtæki. Með því skapast svigrúm til að mæta mögru árunum og jafnvel til að minnka sveiflur, með framkvæmdum á samdráttartímum.

Skuldir ríkissjóðs hafa lækkað um rúma 88 milljarða á síðustu 12 mánuðum. Skuldirnar lækkuðu því um rúmar 240 milljónir á dag eða um 10 milljónir á klukkustund. Ríkissjóður hefur náð góðum árangri á síðustu árum í lækkun skulda.

Skuldir vegna grunnreksturs Reykjavíkurborgar hækkuðu um tæpa 15 milljarða á síðasta ári. Skuldirnar hækkuðu því um rúmar 40 milljónir á dag eða 1,7 milljónir á klukkustund. Skuldir Reykjavíkurborgar hækkuðu um meira en 50% frá 2014 til 2017. Reykjavíkurborg hefur ekki náð góðum árangri í lækkun skulda á síðustu árum.

Er ekkert góðæri í Reykjavík?

Á sama tíma og ríkissjóður hefur lækkað skuldir sínar hratt hafa skuldir Reykjavíkurborgar aukist hratt. Þrátt fyrir mikinn vöxt tekna borgarinnar og hagfelldar aðstæður til niðurgreiðslu skulda. Nýverið samþykkti borgarráð hækkun á lánsfjár­áætlun um 897 milljónir króna. Heimild til lántöku á árinu 2018 er því 6,6 milljarðar króna.

Nú er langt liðið á fordæmalaust hagvaxtarskeið hérlendis, þar sem tekjur borgarinnar hafa hækkað gríðarlega og skattheimta er með hæsta móti. Tíminn til að greiða niður skuldir er núna. Þrátt fyrir það hækka skuldir ár frá ári. Tekjur borgarinnar munu ekki vaxa út í hið óendanlega.

Skuldir ríkisins lækkuðu um 10 milljónir á klukkustund á síðustu 12 mánuðum en Reykjavíkurborg jók skuldsetningu um 1,7 milljónir á klukkustund á síðasta ári. Reykjavíkurborg sýnir ekki ráðdeild í fjármálum.




Skoðun

Sjá meira


×