Dómsmálaráðuneytið hefur úrskurðað að umtalsverðir annmarkar hafi verið á undirbúningi og framkvæmd kosninga til sveitarstjórnar Árneshrepps í maí síðastliðinn. Enginn annmarkanna geti þó valdið ógildingu kosninganna.
Í
úrskurði dómsmálaráðuneytisins kemur ennfremur fram að ráðuneytið hafi hafnað að fella úrskurð kjörnefndar sýslumanns á Vestfjörðum úr gildi.
RÚV greindi fyrst frá málinu síðdegis í dag, en úrskurður dómsmálaráðuneytisins er dagsettur 1. ágúst.
Deilt um lögheimilisflutninga
Mikið var fjallað um kosningarnar í Árneshreppi á sínum tíma þar sem mikið var deilt um byggingu Hvalárvirkjunar, sér í lagi eftir að sautján einstaklingar fluttu lögheimili sitt í Árneshrepp í aðdraganda kosninganna. Að beiðni Þjóðskrár var lögregla fengin til að kanna lögmæti lögheimilisflutninganna, sem komst að þeirri niðurstöðu að stærstur hluti flutningnanna hafi verið ólöglegur.
Árneshreppur er fámennasta sveitarfélag landsins, en fjölgun íbúa nam því 38 prósentum.
Þeir Elías Svavar Kristinssona og Ólafur Valsson kærðu undirbúning og framkvæmd kosninganna til kjörnefndar á vegum sýslumannsins á Vestfjörðum. Kærunum var hafnað en þeir Elías Svavar og Ólafur skutu niðurstöðunni til ráðuneytisins sem nú hefur úrskurðað í málinu.
Annmarkar
Í úrskurðinum segir að veigamestu annmarkarnir við framkvæmd kosninganna snúi að „auglýsingu sveitarstjórnarfunda, framlagningu kjörskrár, tilkynningar um breytingar á kjörskrár, skráningu eins einstaklings á kjörskrá sem óljóst er hvort þar átti að vera auk þess sem ekki var fjallað af sveitarstjórn um þær athugasemdir sem bárust við kjörskrá á kjördag.“
Allir sem réttilega áttu kosningarétt gátu neytt hans
Í úrskuðinum segir einnig að eftir að umræddir sautján einstaklingar höfðu verið strikaðir út af kjörskrá stóðu þar eftir 46 kjósendur.
„Af þeim neyttu 43 kosningaréttar síns. Það sem mestu máli skiptir við mat á því hvort skilyrði 94. gr. laga nr. 5/1998 séu uppfyllt í máli þessu er hvort að annmarkar á undirbúningi og framkvæmd kosninganna hafi orðið til þess að einhverjum þeim sem réttilega átti kosningarétt í Árneshreppi, hafi verið meinað að neyta hans. Telur ráðuneytið alveg ljóst að svo hafi ekki verið og því megi ekki ætla að þeir annmarkar hafi haft áhrif á úrslit þeirra. Er því hafnað kröfu kærenda um ógildingu hins kærða úrskurðar sem og kröfu kærenda um ógildingu kosninga til sveitarstjórnar Árneshrepps sem fram fóru þann 26. maí sl.,“ segir í úrskurðinum.