Hinn sérstaki saksóknari Robert Mueller hefur farið fram á sex mánaða fangelsisdóm yfir George Papadopoulos, sem starfaði fyrir forsetaframboð Donalds Trump.
Papadopoulos viðurkenndi að hafa logið að rannsakendum um tengsl sín við Rússa en hann átti fundi með rússneskum útsendurum á meðan kosningabaráttan var í algleymingi.
Mueller segir að þessir lygar hafi hindrað framgang rannsóknar sinnar á meintum tengslum Rússa við kosningabaráttu Trumps. Meðal annars hafi grunaður maður sloppið úr landi áður en hægt var að yfirheyra hann.
Michael Flynn og Richard Gates, sem báður störfuðu fyrir Trump, hafa einnig viðurkennt að hafa logið að rannsakendum um samskipti sín við Rússa fyrir kosningarnar.
Rannsókn Muellers beinist að því hvort útsendarar rússneskra stjórnvalda hafi reynt að hafa áhrif á úrslit forsetakosninganna með ýmsum hætti. Rússar eru meðal annars sakaðir um tölvuinnbrot, gagnaleka og skipulagða dreifingu áróðurs og falsfrétta á samfélagsmiðlum.
Allt á þetta að hafa verið gert til að auka líkurnar á að Trump bæri sigurorð af Hillary Clinton í forsetakosningunum.
Dómari hefur nú fram til 7. September til að ákvarða refsingu Papadopoulosar. Hámarksrefsing er átta mánuðir en sem fyrr segir hefur Mueller farið fram á sex mánaða dóm.
