Snæbjörn Brynjarsson, rithöfundur og varaþingmaður Pírata, vakti athygli á umræddu svari Eyþórs á Twitter-reikningi sínum í dag. Líkt og fjölmargir aðrir frambjóðendur tók Eyþór kosningapróf RÚV í vor og tók þar afstöðu til ýmissa mála. Í prófinu lýsti Eyþór sig algjörlega ósammála eftirfarandi fullyrðingu: „Sveitarfélagið á að leggja aukna áherslu á uppbyggingu félagslegs húsnæðis.“
Samkvæmt kosningaprófi RÚV var Eyþór Arnalds andvígur auknu félagslegu húsnæði. Hann svaraði prófinu sjálfur eins og aðrir frambjóðendur. Hann er mjög andvígur. Þessvegna er ég mjög ósannfærður um áhuga hans á málefnum heimilislausra. pic.twitter.com/oqfW539ekG
— Snæbjörn (@artybjorn) August 1, 2018
Aðspurður segir Eyþór að svar sitt í kosningaprófinu stangist ekki á við gagnrýni Sjálfstæðisflokksins.
„Nei alls ekki, vegna þess að við viljum breyta kerfinu en ekki stækka það sem ekki virkar.“

„Félagsleg úrræði eru oft neyðarúrræði og mér finnst áherslan á að fjölga í kerfinu ekki vera aðalatriðið heldur að koma í veg fyrir að fólk lendi í félagslega kerfinu, þess vegna setti ég það ofar.“
Sjá einnig: Segja meirihlutann hafa fengist til að viðurkenna húsnæðisvanda
Í þessu samhengi þurfi einnig að hjálpa fólki að komast út úr félagslega kerfinu, sem Eyþóri þykir ábótavant hjá Reykjavíkurborg. „Það er kannski hin ástæðan fyrir því að þetta var ekki sett efst á listann.“
Þá bætir Eyþór við að heimilislausum hafi fjölgað um 95 prósent á örfáum árum og þetta fólk vanti ódýrari úrræði en í boði eru.
„Því að þrátt fyrir að Reykjavíkurborg hafi sett svona mikinn pening í félagslegt húsnæði þá er vandinn mestur í Reykjavík. Þannig að það er eitthvað annað að,“ segir Eyþór.