Reglurnar sem samþykktar voru í gær munu hafa mikil áhrif á starfsemi fyrirtækja á borð við Uber og Lyft í borginni. Samtök leigubílstjóra og baráttufólk gegn umferðaröngþveiti hafa krafist aðgerða frá borgaryfirvöldum eftir sprengingu í fjölda bifreiða á vegum deilibílaþjónusta. Talið er að þær séu nú um 80 þúsund, samanborið við rúmlega 13 þúsund „gula leigubíla“ - sem lengi hafa verið eitt helsta kennileiti borgarinnar.
Leigubílstjórar söfnuðust saman í vikunni fyrir framan samgöngustofu borgarinnar og minntust sex starfsbræða sinna sem hafa fyrirfarið sér á árinu. Sjálfsvígin eru rakin til bágrar fjárhagsstöðu bílstjóranna, sem sögð var vera tilkomin vegna aukinnar samkeppni frá deilibílaþjónustum.
Ekki lausn við teppum
Nýju reglurnar banna einnig nýskráningar á deilibifreiðum næsta árið, að frátöldum bifreiðum sem eru sérútbúnar fyrir hjólastóla. Þær kveða að sama skapi á um lágmarksgjald, lágmarkslaun fyrir bílstjóra og nýtt regluverk fyrir deilibílaþjónustur. Ekki er búið að ákveða hver lágmarkslaun bílstjóranna skulu vera en rúmlega 17 dalir á klukkustund hafa verið nefndir í þessu samhengi.Borgarstjóri New York mælti fyrir reglunum og segir að þær komi í veg fyrir umferðarteppur. Talsmenn deilibílaþjónustu voru eðli málsins samkvæmt andvígir reglunum, sem þeir segja að muni bitna á neytendum. Þar að auki muni þær gera lítið til að greiða úr umferðarflækjum. Þvert á móti munu New York-búar eiga erfiðara með að komast á milli staða eftir breytingarnar, sérstaklega fólk af erlendu bergi brotið og íbúar úthverfanna.
New York var stærsta markaðssvæði Uber í Bandaríkjunum og talið er að íbúar borgarinnar fari að jafnaði um 17 milljón ferðir með deilibílaþjónustum í hverjum mánuði.