Skoðun

40 jarðir

Guðmundur Brynjólfsson skrifar
Maður er nefndur James Ratcliffe. Hann er ríkur enda fær hann aldrei nóg. Ekki einu sinni nógan frið til þess að veiða lax. Hann getur illa veitt í ám í Vopnafirði nema eiga allar jarðirnar í sveitinni. Ríkir menn vilja veiða lax í friði, eða svo segir maður nokkur sem er talsmaður ríkra útlendra manna á Íslandi. Ríkir menn vilja hafa svo mikinn frið að þeir tala helst ekki, þeir hafa aðra í svoleiðis stússi.

Ratcliffe er breskur maður. Bretar hafa nokkuð sérstakan stíl þegar þeir sveifla flugustöng. Hann er þó ekki svo magnaður að það þurfi að eiga heila sveit til þess að koma önglinum í hylinn. Nei, hér býr annað og meira undir.

Ratcliffe er náttúruverndarsinni, hann ætlar sér að koma hér upp paradís á jörð, segir hann. Það er að segja sá sem talar fyrir hann – Ratcliffe talar ekki. Það lá að, nú skýrist allt. Þetta var þá, eftir allt saman, trúarlegt atriði. 40 jarðir, 40 dagar í eyðimörkinni, 40 daga rigning (hér hefur samt eitthvað klikkað). Já, „hann lét þá sjá sig í 40 daga og talaði um Guðs ríki“, segir í einu af upphafsversum Postulasögunnar.

Hér gengur allt eins og fingur í þumal. Ratcliffe er enda spámaður. Hann hefur með sér sína lærisveina, þeir heita ýmsum postullegum nöfnum eins og Holding, Hluthafar ekki skráðir, Limited, Company og Óþekktir eigendur. Þeir boða fagnaðarerindið frá Lúxemborg. Og eru tilbúnir að deyja fyrir íslenska náttúru, íslenskan lax og 40 jarðir.

Það fallegasta við þetta allt er að á milli allra postulanna, Ratcliffes, laxanna, Lúxemborgar og Íslands, liggur trúarlegur þráður, svo magnaður. Svo sterkur að hann er réttnefndur, Strengur.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×