Skoðun

Kæra Nichole

Steingrímur J. Sigfússon skrifar
Sæl Nichole. Vona að þú hafir það gott en þín er saknað hér á þingi eða það geri ég a.m.k.

Það var ekki ég sem ákvað að bjóða forseta danska þingsins í ágúst í fyrra þegar sú hugmynd er fyrst kynnt í forsætisnefnd (þá gegndi Unnur Brá forsetaembættinu).

En, ég var á fundinum og hreyfði ekki andmælum frekar en nokkur annar. Eins og ég hef margoft reynt að benda á er það þeim forseta sem danska þingið hefur kosið sér sem var boðið, en ekki einstaklingi og þá þaðan af síður þeim einstaklingi vegna tiltekinna skoðana. Enda var það nú ekki endilega ljóst fyrir tæpu ári síðan hver myndi gegna embættinu þegar þar að kæmi (danska stjórnin ærið völt á fótunum og allt það).

Ég biðst því undan því að reynt sé að teygja einhvern þráð frá þeim skoðunum sem Pía Kjærsgård hélt á lofti meðan hún var virkur þátttakandi í danskri stjórnmálaumræðu yfir í mínar (ég er aldeilis enginn aðdáandi hennar skoðana og hef aldrei verið).

bestu kveðjur/Steingrímur

Höfundur er forseti Alþingis.




Skoðun

Sjá meira


×