Sport

Serena Williams kvartar yfir mismunun í lyfjaprófunum: Fimm próf í júní

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Serena Williams á 23 risatitla í tennis
Serena Williams á 23 risatitla í tennis Vísir/Getty
Tennisdrottningin Serena Williams er einn mesti íþróttamaður heims. Hún tapaði úrslitaleiknum á Wimbledon risamótinu í tennis á dögunum, á hennar fjórða móti eftir barnsburð. Williams segir lyfjaeftirlit mismuna henni og hún sé sett í prófanir oftar en aðrir.

Williams skrifaði færslu á Twitter í gær þar sem hún sagði: „Það er kominn þessi tími dags þar sem ég er „valin af handahófi“ til þess að fara í lyfjapróf og Serena er sú eina sem fer í próf. Það hefur verið sannað að ég sé prófuð oftast allra. Mismunun? Ég held það. Að minnsta kosti held ég íþróttinni hreinni.“

Hin 36 ára Williams átti sitt fyrsta barn 1. september 2017. Hún hefur aðeins keppt á fjórum mótum á árinu, að Wimbledon meðtöldu, en er sá tennis íþróttamaður sem hefur farið oftast í lyfjapróf árið 2018 samkvæmt opinberum tölum bandaríska lyfjaeftirlitsins.

Williams ræddi málið á blaðamannafundi fyrir Wimbledon mótið þegar upp kom að hún hafi verið ósátt við starfsmann lyfjaeftirlitsins sem mætti fyrir utan hús hennar til þess að taka handahófskennt próf.

„Afhverju á ég að fara í prófanir fimm sinnum í júní?" spurði Williams á blaðamannafundinum. Samkvæmt tölum bandaríska lyfjaeftirlitsins hafa flestar af efstu konum tennisheimsins verið prófaðar einu sinni eða tvisvar á árinu.

„Tennis hefur gefið mér svo mikið og er frábær íþrótt. Ég er að reyna að biðja um jafnrétti. Ef það þýðir að allir eigi að fara í próf fimm sinnum í mánuði, gerum það þá. Þetta snýst bara um að það sama gangi yfir alla og enginn einn sé tekinn út fyrir sviga. Tölurnar sýna að það sé verið að reyna að ýta mér út,“ sagði Williams.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×