Eins og kom fram í Fréttablaðinu í gær fórst herþyrla í síðustu viku í Suður-Kóreu er spaðarnir losnuðu ofan af henni. Það sama gerðist í tveimur stórslysum, í Noregi 2016 og í Skotlandi 2009. Þá var um að ræða Super Puma þyrlur frá Airbus. Síðarnefndu tvö slysin voru rakin til galla í gírkassa vélanna. Sams konar gírkassi frá Airbus var í þyrlunni sem hrapaði í Suður-Kóreu enda var sú þyrlutegund kyrrsett í kjölfar slyssins í Noregi 2016.
Norska flugslysanefndin segir að þennan gírkassa þurfi að endurhanna, jafnvel þótt Airbus hefði gert á honum endurbætur. Landhelgisgæsla Íslands hefur samið um leigu á tveimur Super Puma þyrlum með slíkum gírkössum.
„Við höfum verið að afla okkur upplýsinga um þetta, sérstaklega eftir þennan óskaplega atburð í Suður-Kóreu. Ég reikna með að þeir hjá Landhelgisgæslunni endurmeti stöðuna eftir þetta,“ segir Ingvar Tryggvason.

Í tilefni af þyrluslysinu í Suður-Kóreu spurðist Fréttablaðið fyrir um það hjá Landhelgisgæslunni í fyrradag hvort halda ætti nýja leigusamningnum til streitu eða ekki. Jafnframt var spurt um hvað liði boðaðri yfirferð stofnunarinnar á nýlegum niðurstöðum flugslysanefndarinnar í Noregi. Svar hefur ekki borist. Hins vegar framsendi Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, Fréttablaðinu í gær til upplýsingar tölvupóst frá Höskuldi Ólafssyni, tæknistjóra stofnunarinnar, til framkvæmdateymis Gæslunnar.
„Vélin sem fórst í Suður-Kóreu er ekki H225 vél. Þetta er hervél MUH-1 sem er hönnuð og framleidd í Suður-Kóreu en gert í einhverju samstarfi við Airbus. Hefur ekkert að gera með framleiðslu H225 eða flugstarfsemi innan EASA. Ótrúlegar fullyrðingar og fréttaflutningur hjá Fréttablaðinu!“ segir í pósti Höskuldar.
Því var reyndar alls ekki haldið fram í Fréttablaðinu að um væri að ræða H225 Super Puma þyrlu í Suður-Kóreu. Þvert á móti kom einmitt skýrt fram að um hafi verið að ræða MUH-1 herþyrlu. Hins vegar var á það bent að þessar þyrlur eru með sams konar gírkassa frá Airbus.
Ekkert samráð mun hafa verið haft við flugmenn hjá Landhelgisgæslunni um leigu á umræddum þyrlum og eru þeir sagðir mjög hugsi yfir stöðunni.