Katrín, sem var gestur í útvarpsþættinum Morgunvaktinni á Rás 1, segir að það sé mikilvægt að læra af þessum þingfundi. „Ég veit ekki hvort ég á að kalla þetta klúður, nei, ég ætla nú ekki að gera það en ég ætla að segja að mér finnst þessi fundur kalla á það að Alþingi velti því aðeins fyrir sér; erum við í einhverju samtali við þetta samfélag?“
Hún segir að það hafi verið óljóst hvort stjórnvöld hafi ætlast til þess að almenningur kæmi á viðburðinn.

Allir stjórnmálaflokkar hafi átt aðild að ákvarðanatökunni
Þegar Katrín er spurð út í ákvarðanatökuferlið í aðdraganda þess að hinni umdeildu Piu Kjærsgaard, forseta danska þingsins, var boðið að ávarpa hátíðarsamkomuna segir hún að ákvörðunin hefði verið tekin fyrir töluverðum tíma en þetta var rætt í forsætisnefnd í ágúst á síðasta ári og kynnt á vef Alþingis í apríl síðastliðnum.„Það var tekin ákvörðun fyrir töluverðum tíma að bjóða henni til þessa fundar og sama hvað hver segir þá hafa allir flokkar verið hluti af þessari ákvarðanatöku þó að kannski einhverjir hafi verið með mismikla meðvitund á einhverjum fundum þar sem þessi mál voru til umræðu, ég þekki það ekki,“ segir Katrín.
Hefur áhyggjur af vaxandi útlendingaandúð á meðal helstu samstarfsþjóða
Katrín segir að við séum að horfa upp á gerbreytt pólitískt landslag bæði í Evrópu og hjá nágrannalöndum okkar sem við eigum í samvinnu við sem einkennist af vaxandi þjóðernishyggju og útlendingaandúð.„Af hverju er Pia Kjærsgard forseti danska þingsins? Það er vegna þess að Danski þjóðarflokkurinn hefur þar náð miklu fylgi og sú stefna sem hann hefur staðið fyrir sem ég er algjörlega ósammála, sem snýst um það að tala fyrir ákveðinni aðgreiningu, tala gegn of mörgum innflytjendum til Danmerkur og tala líka fyrir ákveðinni aðgreiningu í því hvernig um þá er talað og það er hægt að nefna mörg dæmi um það í umræðunni.“

„Í Danmörku vakti það mína athygli í síðustu kosningum og það hefur svo sem líka komið fram í umræðunni að Danskir jafnaðarmenn fóru fram undir yfirskriftinni „sú Danmörk sem við þekkjum“ og vísuðu þar með í einhvers konar sérdönsk gildi.“
Hún segir að það sé mikilvægt að takast á við þennan nýja veruleika og mælist til þess að við ræðum um það hvernig við eigum að takast á við alþjóðleg samskipti og fjölþjóðlegt samstarf við slíkar aðstæður. Það hafi einmitt verið ástæðan fyrir því að hún ákvað að ávarpa vandann í sinni ræðu á Þingvöllum.
„Mér finnst þetta hins vegar vera þannig að þessi ákvörðun var tekin af forsætisnefnd að gera þetta með þessum hætti og þá fannst mér bara eðlilegt að ég myndi takast á við þessi mál í minni ræði af því við þurfum að takast á við þau hér eins og annars staðar í Evrópu og við þurfum að gera það í öllu okkar fjölþjóðlega samstarfi.“