Verkefnið hófst sem tilraun til að vinna 30 milljón dollara styrk sem var í boði fyrir sigurvegara Google Lunar XPrize. Tímafresturinn rann hins vegar út í mars án þess að nokkrum keppanda tækist að lenda á tunglinu.
SpaceIL var hins vegar svo langt á veg komið að ákveðið var að halda áfram í samstarfi við Israel Aerospace Industries, sem er í eigu ísraelska ríkisins.
Suður-Afríski milljarðamæringurinn Morris Kahn, sem er af gyðingaættum og með ísraelskt vegabréf, er sagður hafa lagt til stóran hlut af því fé sem þurfti til að draumurinn yrði að veruleika.
SpaceIL hefur varið minnst 88 milljónum dollara í að hanna og byggja geimfarið, sem nemur tæpum tíu milljörðum íslenskra króna. Það verður um tveir metrar að þvermáli, einn og hálfur meter að hæð og vegur aðeins 585 kíló. Þar af eru 400 kíló af eldsneyti.
Til að uppfylla skilmála XPrice verðlaunanna var geimfarið hannað til að lenda á tunglinu en hoppa síðan aftur upp og lenda í 500 metra fjarlægð.
Gangi áætlun SpaceIL eftir verður Ísrael fjórða ríki heims til að lenda á tunglinu á eftir Bandaríkjunum, Sovétríkjunum og Kína.
Fari allt á versta veg eru enn fjórir hópar eftir í kapphlaupinu um að koma fyrsta geimfarinu á einkavegum til tunglsins.
Einn hópurinn er alþjóðlegur, einn bandarískur, einn indverskur og einn frá Japan.
Ísraelsmenn hafa aðeins átt einn geimfara í sögunni, Ilan Ramon. Hann fórst með geimfarinu Columbia skammt frá bænum Palestine í Texas árið 2003.