Í svari Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, við fyrirspurn Björns Leví Gunnarssonar frá því í júnílok kemur fram að kostnaður í rekstraráætlun ársins vegna fundarins hafi verið um 45 milljónir. Þó væri ljóst að eftir því sem umfang viðburðarins hefði skýrst gæti kostnaður orðið eitthvað meiri.
Fundurinn verður sýndur í beinni útsendingu og segir Helgi að því fylgi töluverður kostnaður þar sem taka þurfi tillit til þess í skipulagningu. Þá hefur verið settur upp sérstakur pallur fyrir neðan Lögberg sem ætlaður er þingmönnum og boðsgestum.

Fundurinn á Þingvöllum er liður í hátíðarhöldum í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands. Þar stendur til að samþykkja þingsályktunartillögur um stofnun Barnamenningarsjóðs, byggingu nýs hafrannsóknaskips og útgáfu ritverka um Þingvelli í íslenskri myndlist og bókmenntasögu frá landnámi til 21. aldar.
Á morgun verða 100 ár liðin frá undirritun samninga um sambandslögin. Lögin tóku gildi 1. desember 1918 eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um haustið.
„Starfsfólk þingsins er á kafi í undirbúningi. Við höfum verið í miklu samstarfi við þjóðgarðsvörðinn og hans starfslið. Einnig í miklu og góðu samstarfi við lögreglu, utanríkisráðuneytið og ekki síst Sjónvarpið,“ segir Helgi.
Einar Á. E. Sæmundsen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, segir undirbúning almennt hafa gengið vel. Fundurinn nú sé einfaldari í sniðum en fyrri hátíðarfundir sem hafa verið haldnir á staðnum. „Þó setur aukinn ferðamannafjöldi þetta í annað samhengi en einnig eru töluvert meiri öryggiskröfur nú en til dæmis árið 2000, þegar Alþingi kom síðast saman á Þingvöllum.“
Einar segir að fundinum fylgi einhver röskun á hefðbundnu flæði ferðaþjónustufyrirtækja. Til að mynda verður vegi inn að gestastofu á Hakinu og bílastæði þar lokað frá klukkan átta um morguninn til klukkan sex um kvöldið. Að sögn Einars hafa rúmlega fimm þúsund manns að meðaltali gengið um Almannagjá á hverjum degi það sem af er júlí.