„Veiðar og vinnsla rækju hafa átt erfitt uppdráttar hérlendis á undanförnum árum og er ákvörðunin tekin í ljósi langvarandi tapreksturs í Grundarfirði sem ekki virðist gerlegt að vinda ofan af við núverandi aðstæður,“ segir í tilkynningu frá FISK.
„Alls munu nítján manns fá uppsagnarbréf sín í kjölfar fundarins í dag en tveimur er boðið að vinna áfram að frágangi í verksmiðjunni og undirbúningi sölu tækja og búnaðar á allra næstu mánuðum. FISK Seafood segist harma þessar málalyktir en vekur athygli á að rekstrarumhverfi veiða og vinnslu rækju á Íslandi hefur breyst verulega á undanförnum árum með óhjákvæmilegum samdráttaráhrifum.

834 íbúar eru á Grundarfirði samkvæmt tölum Hagstofunnar.
Vísir hafði samband við fráfarandi bæjarstjóra Grundarfjarðar, Þorstein Steinsson, og Björgu Ágústsdóttur sem tekur við starfinu 1. ágúst. Hvorugt þeirra hafði heyrt af uppsögnunum þegar blaðamaður hafði samband.
„Það er alltaf ömurlegt þegar atvinnutækifærin eru að flosna upp,“ sagði Þorsteinn sem var á fundi þegar blaðamaður náði rétt í skottið á honum.