„Áhyggjuefnið núna er þessi skyndilega aukning lyfjatengdra andláta í byrjun ársins sem við höfum fengið til skoðunar en það voru færri andlát í byrjun ársins í fyrra. Þetta gerist á sama tíma og dregur úr ávísunum ópíóíða en við sjáum að heildarmagn ávísaðra dagskammta af ópíóíðum dregst saman um sjö prósent á fyrsta ársfjórðungi 2018 miðað við sama tíma í fyrra.
Þá höfum við verið að fá ábendingar frá Tollstjóraembættinu um að mikil aukning sé á haldlagningu lyfja sem einstaklingar eru að flytja til landsins. Það bætist ofan á það að meira er ávísað af þessum lyfjum hér á landi en í flestum öðrum löndum. Eins og þessar tölur yfir andlát sýna, þá getur fólk sem misnotar lyfin verið í mikilli hættu og fikt getur haft alvarlegar afleiðingar. Það er enn talsvert í land með að notkun ávanabindandi lyfja verði álíka og í nágrannalöndunum og það er mikið áunnið ef það tekst að fá notkunina í betra horf og draga úr fjölda þeirra sem ánetjast lyfjum,“ segir Ólafur.

„Árið 2017 voru andlátin 30 og var meðalaldur hinna látnu 48 ár. Þessir einstaklingar skiptust eftir aldri og því hvaða efni þeir höfðu verið að taka. Í flestum fundust mörg efni, þeir yngri (20-40 ára) höfðu margir tekið sterk verkjalyf ásamt ólöglegum efnum (kannabis, MDMA, amfetamín) en þeir eldri (40 ára og eldri) höfðu flestir tekið þunglyndislyf og neytt áfengis. Um þriðjungur hafði ekki fengið ávísað lyfjum 12 mánuðum fyrir andlát sem bendir til þess að þeir hafi átt gömul lyf eða fengið þau með öðrum hætti. Inni á milli eru andlát þar sem einstaklingar voru að fá ávísað stórum skömmtum af lyfjum frá einum eða fleiri læknum og þá er metið hvort ástæða er til að krefja lækni skýringa,“ segir Ólafur.