Ríkið Makedónía, sem þangað til nú hafði verið kennt við Júgóslavíu (e. Former Yugoslav Republic of Macedonia) hjá Sameinuðu þjóðunum, mun hér eftir heita Lýðveldi Norður-Makedóníu. Opinbert tungumál ríkisins verður makedónska og íbúar þess Makedónar.
Sjá einnig: Fjölmenn mótmæli í Aþenu vegna Makedóníu-deilunnar
Eins og áður sagði hefur nafnið lengi verið þrætuepli ríkjanna tveggja en grísk yfirvöld hafa ætíð mótmælt nafninu Makedónía, sem lýðveldið tók sér árið 1991, þar eð þau óttuðust að nágrannaríkið myndi gera tilkall til samnefnds landsvæðis sem fellur innan grískra landamæra. Þá hefur nafnadeilan haft mikil áhrif á stöðu Makedóníu í samfélagi þjóðanna þar sem hún hefur torveldað leið landsins til að gerast aðili að Evrópusambandinu og NATO.
Sættir í málinu virðast hafa verið nokkra mánuði í bígerð en stjórnvöld í Makedóníu tilkynntu snemma árs að þau myndu gefa einum af flugvöllum landsins, þeim sem kenndur er við Alexander mikla, nýtt nafn til að liðka fyrir lausn deilunnar. Sömuleiðis var hraðbrautinni í landinu, sem kennd er við Alexander mikla, gefið nýtt nafn, Vegur vináttunnar.
Nú síðast áttu svo forsætisráðherra Grikklands, Alexis Tsipras, og makedónski starfsbróðir hans, Zoran Zaev, óformlegan fund um nafnið í Búlgaríu í síðasta mánuði og í dag lýsti Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, yfir ánægju sinni með lyktir málsins.
I welcome the historic agreement by @tsipras_eu & @Zoran_Zaev on the name dispute between Athens and Skopje. I thank them for their will to solve a dispute which has affected the region for too long & call on both countries to finalise the agreement. https://t.co/EuDQcI1AYe pic.twitter.com/BnSwod1IS2
— Jens Stoltenberg (@jensstoltenberg) June 12, 2018