Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, er enn á ný tekjuhæsti fjölmiðlamaðurinn á Íslandi samkvæmt tekjublaði Frjálsar verslunar.
Frjáls verslun gefur í dag út sitt árlega tekjublað og er blaðið í sölu í 13 daga. Þar eru birtar tekjur um þrjú þúsund einstaklinga víðs vegar af landinu. Þekkts fólks í þjóðlífinu, menn í atvinnulífi, listum og stjórnmálum.
Forsætisráðherrann fyrrverandi hefur undanfarin ár skipað efsta sæti listans og svo virðist sem að hagur Davíðs hafi vænkast á milli ára.
Samkvæmt lista tekjublaðs DV var hann með 5,7 milljónir í tekjur á mánuði á síðasta ári. Er það töluvert stökk frá árinu 2016 þegar hann var með 3,9 milljónir á mánuði samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar í fyrra.
Árvakursmenn raða sér í tvö efstu sætin en í öðru sæti er Haraldur Johannesson, annar ritstjóra Morgunblaðsins og framkvæmdastjóri Árvakurs, með 4,3 milljónir í tekjur á mánuði.
Gustað hefur um Björn Inga Hrafnsson að undanförnu en á síðasta ári var hann með 2,5 milljónir á mánuði og skilar það honum í þriðja sæti lista DV yfir tekjuhæstu fjölmiðlamenn síðasta árs.
Logi Bergmann Eiðsson skipti um vinnu á síðasta ári er hann fór yfir til Árvakurs frá 365 miðlum. Hann er í fjórða sæti listans með 1,78 milljónir á mánuði.
Kristín Þorsteinsdóttir, ritstjóri Fréttablaðsins, er í fimmta sæti listans með 1,71 milljón á mánuði í tekjur.
Egill Helgason er launahæsti starfsmaður Ríkisútvarpsins ef marka má lista Frjálsrar verslunar. Er hann í áttunda sæti listans með 1,3 milljónir á mánuði.
Listi Frjálsrar verslunar er byggður á útsvarsskyldum tekjum á árinu 2015 og þurfa þær því ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Í einhverjum tilvikum kann skattstjóri að hafa áætlað tekjur.
