Viðskipti innlent

Tekjur Íslendinga: Steindi Jr. í öðru sæti yfir tekjuhæstu listamennina

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Leikarinn Steindi Jr. vermir annað sæti lista Fjrálsrar verslunar yfir tekjuhæstu listamennina.
Leikarinn Steindi Jr. vermir annað sæti lista Fjrálsrar verslunar yfir tekjuhæstu listamennina. vísir/vilhelm
Rithöfundurinn og lögfræðingur Gamma, Ragnar Jónsson, er tekjuhæstur íslenskra listamanna ef marka má tekjublað Frjálsrar verslunar sem kom út í dag. Er hann með 2,058 í laun á mánuði. Í öðru sæti er leikarinn Steinþór Hróar Steinþórsson, betur þekktur sem Steindi Jr., með 1,813 milljónir í mánaðarlaun.

Frjáls verslun gefur í dag út sitt árlega tekjublað og er blaðið í sölu í 13 daga. Þar eru birtar tekjur um þrjú þúsund einstaklinga víðs vegar af landinu. Þekkts fólks í þjóðlífinu, menn í atvinnulífi, listum og stjórnmálum.

Í þriðja sæti listans yfir tekjuhæstu listamennina er Óskar Magnússon, rithöfundur og bóndi, með 1,801 milljónir í mánaðarlaun og í fjórða sæti er rithöfundur Sigurjón B. Sigurðsson, sem er betur þekktur undir listamannsnafni sínu Sjón, með 1,648 milljónir á mánuði í laun.

Leikarinn og leikstjórinn Siggi Sigurjóns vermir svo fimmta sæti listans yfir tekjuhæstu listamennina með 1,573 milljónir króna í mánaðarlaun og í sjötta sæti er leikstjórinn Baltasar Kormákur 1,483 milljónir króna á mánuði.

Sigga Beinteins tekjuhæsta listakonan

Pétur Jóhann Sigfússon, leikari, er í sjöunda sæti listans með 1,393 milljónir króna í mánaðarlaun en fast á hæla hans kemur rithöfundurinn Jón Kalman Stefánsson með 1,361 milljónir króna á mánuði.

Hilmir Snær Guðnason, leikari, vermir níunda sæti listans yfir tekjuhæstu listamennina með ,1324 milljónir króna í mánaðarlaun og í tíunda sæti er Huldar Freyr Arnarson, kvikmyndagerðarmaður, með 1,316 milljónir króna á mánuði.

Sigríður Beinteinsdóttir, söngkona, er tekjuhæsta listakonan ef marka má lista Frjálsrar verslunar en hún er í tólfta sæti með 1,112 milljónir króna á mánuði.

Ef tekin eru svo nokkur nöfn af handahófi af listanum má sjá að Jón Þór Birgisson, Jónsi, söngvari Sigur Rósar er með 825 þúsund krónur í mánaðarlaun Illugi Jökulsson, rithöfundur, er með 790 þúsund krónur í laun á mánuði, Arnaldur Indriðason, rithöfundur , með 765 þúsund krónur, Yrsa Sigurðardóttir, rithöfundur og verkfræðingur með 699 þúsund og Sigríður Thorlacius, söngkona, með 555 þúsund krónur.

Í neðsta sæti lista Frjálsrar verslunar yfir tekjuhæstu listamennina er svo rithöfundurinn Hallgrímur Helgason með 161 þúsund krónur í mánaðarlaun.

Listi Frjálsrar verslunar er byggður á útsvarsskyldum tekjum á árinu 2017 og þurfa þær því ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Í einhverjum tilvikum kann skattstjóri að hafa áætlað tekjur.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×