Erlent

Starfsmaður Hvíta hússins sem hæddist að veikindum þingmanns látinn fara

Kjartan Kjartansson skrifar
McCain er orðinn 81 árs gamall. Hann var skorinn upp vegna heilaæxlis í fyrra.
McCain er orðinn 81 árs gamall. Hann var skorinn upp vegna heilaæxlis í fyrra. Vísir/AFP
Aðstoðarkona á samskiptasviði Hvíta hússins sem hafði alvarleg veikindi þingmanns í flimtingum í síðasta mánuði er hætt störfum þar. Ástæðan er talin vera innanhússdeilur frekar en óheppileg ummæli hennar um þingmanninn.

Kelly Sadler vakti mikla athygli þegar hún gerði lítið úr andstöðu Johns McCain, öldungadeildarþingmanns repúblikana, við tilnefningu Donalds Trump forseta á nýjum forstjóra leyniþjónustunnar CIA með þeim orðum að McCain væri „hvort sem er að deyja“. McCain hefur verið í meðferð vegna illkynja æxlis í heila um margra mánaða skeið.

Hvíta húsið hafnaði því hins vegar að reka Sadler eða að biðjast afsökunar á orðum hennar. Sjálf bað hún dóttur McCain afsökunar í símtali en aldrei opinberlega eins og hún hafði krafist. Fréttir af orðum Sadler, sem féllu á lokuðum fundi starfsmanna Hvíta hússins, leiddu til herferðar gegn lekum í innsta hring Trump forseta.

New York Times hefur eftir heimildarmönnum sínum að orð Sadler um McCain hafi ekki verið ástæða þess að hún var látin fara heldur illdeilur hennar við aðra starfsmenn. Sadler er meðal annars sögð hafa sakað samstarfskonu sína um að leka reglulega upplýsingum í fjölmiðla.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×