Tíðni fóstureyðinga í yngsta aldurshópi kvenna (15-19 ára) hefur fækkað allverulega undanfarna tvo áratugi. Nýjar tölur frá árinu 2017 sýna að 12,4 stúlkur af hverjum 1.000 hafa rofið þungun, sem er lægri tíðni en meðaltal áranna 2011-2015.
Til viðmiðunar voru framkvæmdar að meðaltali 13,3 fóstureyðingar hjá hverjum 1000 stúlkum í aldurshópnum á árunum 2011-2015.
Tölur um fóstureyðingar á árinu 2017 eru komnar út og eru aðgengilegar á vef Embættis landlæknis.
Nálægt hinu norræna meðaltali
Árið 2017 voru 1,044 fóstureyðingar framkvæmdar hérlendis sem nemur 13,1 fóstureyðingu á hverjar 1.000 konur á frjósemisaldri. Þessi tíðni er nálægt norrænu meðtali en 13,3 fóstureyðingar á hverjar 1.000 konur á Norðurlöndunum árið 2015.
Nokkur munur eftir búsetu
Nokkur munur er á tíðni fóstureyðinga eftir búsetu kvenna á Íslandi. Þannig hafa þær konur sem flestar rufu þungun í fyrra verið búsettar á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu, rétt eins og árið 2016. Fæstar fóstureyðingar voru aftur á móti hjá konum sem eru búsettar á Vesturlandi.
Meirihluti kvenna ekki gengist undir aðgerð áður
Ríflega 64% kvenna sem gekkst undir fóstureyðingu á síðasta ári hafði ekki gengist undir slíka aðgerð áður á meðan tæp 23% kvennanna höfðu gert það. Aðeins 13% kvenna sem fóru í fóstureyðingu í fyrra höfðu tvisvar sinnum eða oftar gengist undir þungunarrof.

