Skoðun

Séra Bjarni

Jóna Hrönn Bolladóttir skrifar
Þegar ég ólst upp voru nokkrir meistarar hafðir í hávegum á heimili mínu. Þar var Andrés Björnsson útvarpsstjóri. Þegar hann flutti sína áramótaræðu ríkti dauðaþögn í stofunni. Þá var Kristján Eldjárn forseti sem þjónaði af hógværð og þekkingu. Einnig Sigurbjörn Einarsson biskup, sá orðsins og andans maður. Eins séra Friðrik Friðriksson sem enn í dag er mér stór fyrirmynd í starfi og ég hef hugsað hve stórkostlegt hefði verið að fá að hitta hann.

Og svo var það Bjarni Jónsson dómkirkjuprestur sem var svo mikill sálusorgari og óborganlegur húmoristi að enn lifa af honum sögurnar. Ung heyrði ég hvernig hann hefði sinnt sínum skyldum í Reykjavík í spænsku veikinni. Á þremur vikum hafði hann jarðsungið 115 manns og talað persónulega yfir hverri kistu, en heim til hans og frú Áslaugar lá sífelldur straumur syrgjandi fólks. Ég naut þess fyrir nokkru að heyra röddina hans í gömlu útvarpsviðtali, svo hrjúfa og sterka og litríkur persónuleikinn skein í gegn. Mér leið eins og unglingsstúlku að hlusta á „Bíberinn“.

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig þessir höfðingjar hefðu mætt ágangi fjölmiðla, kommentakerfa og Facebook-statusa og í ljósi þess fundist þeir hafa lifað gósen­tíð í samanburði við sálusorgara dagsins í dag. Þess vegna var það dálítið hollt fyrir mig að rekast á orð séra Bjarna þegar hann segir: „Kirkjan hverfur ekki vegna þess að hún byggir á Guði. Hvernig var það í fornöld? Hvernig leit út fyrir kirkjunni í stjórnarbyltingunni frönsku þegar kristindómurinn var opinberlega afnuminn? Eða 1905 þegar kirkja og ríki voru aðskilin í Frakklandi og einn stjórnandinn sagði: „Nú höfum við slökkt ljósin á himninum.“ Þau ljós loga enn. Og þau skulu varpa skærum ljóma, einnig hér á landi.“




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×