Bíó og sjónvarp

Weinstein hótaði að ráða Tarantino til að leikstýra Hringadróttinssögu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein og leikstjórinn Quentin Tarantino ásamt leikkonunni Golshifteh Farahani.
Kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein og leikstjórinn Quentin Tarantino ásamt leikkonunni Golshifteh Farahani. Vísir/Getty

Kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein hótaði því að ráða leikstjórann Quentin Tarantino til að leikstýra kvikmynd byggðri á Hringadróttinssögu í stað leikstjórans Peters Jackson ef Jackson yrði ekki við kröfum Weinsteins um að gera eina tveggja klukkustunda langa kvikmynd eftir sögunni.



Þetta kemur fram í nýútgefinni bók handritshöfundarins Ians Nathan, Anything You Can Imagine: Peter Jackson & The Making of Middle-Earth.



Sjá einnig: Ashley Judd í mál við Harvey Weinstein



Í bókinni er haft eftir framleiðanda, sem starfaði við kvikmyndina, að Weinstein hafi sagt Jackson að hann yrði að þjappa Hringadróttinssögu-handriti sínu niður í eina, tveggja klukkustunda kvikmynd. Ef Jackson yrði ekki við því sagðist Weinstein ætla að ráða áðurnefndan Tarantino eða leikstjórann John Madden í hans stað.



Jackson sagði sjálfur að Hringadróttinssögukvikmynd eftir uppskrift Weinsteins hefði valdið hverjum einasta aðdáanda vonbrigðum. Þá hefði auk þess þurft að stroka út persónur á borð við Jóvin og Sarúman og þá hefði Hjálmsdýpi einnig þurft að víkja.



Á endanum náðist að sannfæra Weinstein um að leyfa Jackson að selja öðru kvikmyndaveri réttinn að handritinu. Framleiðslufyrirtækið New Line Cinema var á endanum hlutskarpast og framleiddi þrjár kvikmyndir eftir sögu J.R.R. Tolkiens eins og frægt er orðið: Föruneyti hringsins, Tveggja turna tal og Hilmi snýr heim.



Jackson sagði í viðtali í desember síðastliðnum að hann telji að Weinstein og bróðir hans hafi vísvitandi talað illa um tilteknar leikkonur, þar á meðal Miu Sorvino og Ashley Judd, vegna þess að þær höfðu hafnað Weinstein kynferðislega. Jackson sagði enn fremur að fulltrúar Miramax hafi sagt við hann árið 1998 að það væri ómögulegt að vinna með þeim og að hann ætti að forðast þær eins og heitan eldinn. Jackson hafði þá áhuga á því að fá þær til að leika í Hringadróttinssöguþríleiknum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.