Skoðun

Milljarðar til vegaframkvæmda

Sigurður Ingi Jóhannsson skrifar
Ríkisstjórnin vill hraða uppbyggingu í vegamálum til að tryggja umferðaröryggi vegfarenda og treysta fjölbreytt atvinnulíf um land allt. Ríkisstjórnin samþykkti því að fjórir milljarðar króna færu aukalega núna strax til brýnna vegaframkvæmda.

Með auknu fjármagni er hægt að setja aukinn kraft í yfirlagnir á vegum, malbik, viðhald malarvega, styrkingar og ýmsar endurbætur. Með auknu fjármagni er hægt að flýta mikilvægum vegabótum um land allt sem ella hefðu þurft að bíða, t.d. á Grindavíkurvegi og Borgarfjarðarvegi. Með auknu fjármagni fær Vegagerðin svigrúm til að forgangsraða og ráðstafa því fjármagni sem er til reiðu og leggja áherslu á fjölda brýnna verkefna sem setið hafa á hakanum og eru tilbúin til framkvæmda strax.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að við forgangsröðun í vegamálum verði litið til ólíkrar stöðu svæða, ferðaþjónustu og öryggissjónarmiða. Umtalsverða aukningu á fjármagni má sjá í fjármálaáætlun til næstu ára, eða 16,5 milljarða.

Þá kallar síaukinn umferðarþungi á nýbyggingu og endurnýjun vega og nýjar leiðir í gjaldtöku á einstaka framkvæmdum. Margar brýnar framkvæmdir bíða og eru aðkallandi. Í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu er unnið að því að skoða hvaða leiðir hægt sé að fara, t.d. með því að stofna félög um gerð einstakra mannvirkja og taka upp afnotagjöld. Sem dæmi má nefna leiðir á hringveginum þar sem ökumenn hafa þann valkost að aka aðrar leiðir og eru því ekki bundnir af því að greiða gjöldin. Valið stæði þá á milli nýju leiðarinnar og þeirrar gömlu. Í þeirri sviðsmynd má hugsa sér nýja brú yfir Ölfusá, nýjan veg um Mýrdal og göng í gegnum Reynisfjall, sem myndi færa umferð frá byggðinni í Vík, nýjan veg um Öxi og nýja leið um Sundabraut. Til vegaframkvæmda gætu því runnið allt að 150 milljarðar á næstu fimm til sex árum.

Höfundur er samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra 




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×